01.01.2013 - Pistill

Ljósmyndun í fjallamennsku

Inngangur

„The world is my studio“ segja margir lengra komnir ljósmyndarar. Ég er því sammála, þó svo að ég hafi prufað að vera með innanhúss stúdíó hér í bænum með bakgrunnum og ljósabúnaði finnst mér ekkert jafnast á við að fara og taka myndir í náttúrunni jafnvel þó ég sé að taka myndir af fólki vegna aðburða/afreka. Margir hafa spurt mig hvernig ég fer að því að taka myndirnar sem ég birti, bæði þegar ég hitti það og einnig gengum netið. Ég hef reynt að gefa nokkur góð ráð ofl. þegar þetta gerist en nú er svo komið að mér datt í hug að skrifa smá pistil um þetta. Eftirvinnsla á myndum er mikilvæg, en ef „hráefnið“ er ekki gott verður loka útkoman aldrei góð. Því skiptir máli að gera hlutina vel og vanda sig þegar myndir eru teknar.

Minn búnaður

Myndavél:
Ég er að nota Nikon DSLR myndavélar í ferðum mínum, ég valdi Nikon fljótlega eftir að hafa byrjað með Canon eins og flest allir ekki vegna þess að það koma flottari myndir úr henni heldur vegna þess hve þægilegt er að stjórna þeim, jafnvel þó maður sé í þykkum fjallalúffum einnig sem hægt er að stjóra lausum flössum þráðlaust. Þetta á þó ekki endilega við litlu tegundirnar. Stjórn á myndavélinni skiptir öllu máli, sumir skjóta allt með myndavélina stillta á auto, ég geri það ekki. Nýrri DSLR vélarnar eru líka komnar með fandi góð ISO gæði þannig að hægt er að taka myndir lengur fram í rökkrið.

Crop vs. Fullframe:

Ég skipti í D700, full-frame myndavél árið 2009 en stuttu seinna kom ný vél, D7000 sem hefði getað verið hentugri fyrir mig, bæði að ég hefði getað tekið video á hana ásamt því að hún er 1,5 crop og því bæði vélin og linsurnar mun minni og léttari. Hinsvegar er ég að fá mun betri gæði og meiri dýpt í myndirnar með fullframe vélinni en það tekur líka stundum alveg svakalega á að bera hana með sér, hvað þá ef manni dettur í hug að taka með sér auka linsu. Á sama tíma og ég uppfærði vélina þurfti ég auðvitað að endurnýja helstu linsurnar með og það kostaði nokkurra mánaðar söfnun þó ég hafi selt eldri linsuna á sama tíma.

Linsur:

Linsan er mikilvægasti þáttur þess að fá góða mynd. Alvöru linsur kosta mikið og jafnvel meira en myndavélin sjálf. Þessar plastlinsur sem er verið að selja með ódýru vélunum skila ekki nærri því sömu gæðum og þegar farið er í efri klassa á linsum.

Aðal linsa:

24-70mm á fullframe en 17-55 á crop. Þessar linsur hef ég notað í 80% tilvika þegar ég er með vélina á fjöllum. Þarna er helsta sviðið og það tekur sæmilega víða mynd t.d. fyrir landslag en einnig getur maður dregið aðeins að til að ramma inn það sem maður sér.

Víðlinsa:

14-24mm á fullframe en 10-20mm á crop. Þessar hef ég notað við þröngar aðstæður, þegar maður er nálægt viðfangsefninu og þegar taka á myndir af aðstæðum og jafnvel bröttum hryggjum ofl. Hafa þarf í huga að vera helst ekki með mikið af fólki á myndunum þar sem það vill teygjast og bjagast í víðáttu linsunnar.

Aðdráttarlinsa:

70-200mm f/2.8 í bæði fullframe og crop. Þessa linsu hef ég átt frá upphafi og gríp í hana af og til. Þó er hún minnst notaða linsan í settinu þar sem ég er mjög lítið að taka dýralífsmyndir. Þó koma upp tækifæri þar sem aðdráttur getur verið mjög flottur og þá er gott að vera með hana. Þessa linsu burðast ég þó ekki með á fjöll en er yfirleitt með þegar ljósmynda á sportklifur þegar ekki er löng aðkoma.

Annar búnaður:

Þrífótur, léttur úr plasti eða fíber gerir gæfumuninn þegar taka þarf á lengri tíma og timelapse. Þó er gott að eiga líka þungan og góðan fót til að eiga í bílnum og taka t.d. timelapse oþh. án þess að eiga hættu á að fá hristing vegna vinds.
Ég er með UV filter á hverri linsu henni til varnar aðallega. Það er ódýrara að kaupa nýjan filter á nokkra þúsundkalla en nýja linsu á fleiri hundruð þúsund ef glerið rispast og það hefur borgað sig hjá mér! UV filter er glær filter sem skrúfast framaná linsuna.
Auk UV filteranna er gott að eiga polarizer filter sem gerir oft himinn dramatískari og „slekkur á“ speglunum, t.d. í vötnum ofl. Þó ber að varast að polarizer dekkir svoldið þannig að hann er ekki hægt að nota nema í góðri birtu eða á þrífæti. Einnig er ekki ráðlagt að vera með polarizer í timelapse tökum þar sem litirnir breytast eftir horninu sem lýst er á þá.
Flass getur verið gott að hafa við hendina, en er þó yfirleitt skilið eftir. Samt er magnað hvað maður getur notað það í fjallaferðum og þá kannski sérstaklega klifri, en það kostar bæði pláss og fyrirhöfn. Myndavélataska skiptir miklu máli, en hún þarf að vera létt, þægileg, verja vélina, ekki íþyngjandi og rúma það sem þú tekur með. Öllu máli skiptir að þú sért eldsnögg/ur að taka vélina upp og setja hana niður aftur þegar færið gefst!

Ljósmyndatækni í fjalllendi

Römmun skiptir öllu máli, það er að ákveða hvernig myndin á að vera uppbyggð.
Hvað er á myndinni? Hvar vill ég hafa aðalmyndefnið á myndinni? Hvað er ég að túlka með myndinni? Hvert leiðir myndin mig? Eru meðal spurninga sem maður spyr sig þegar maður tekur myndir. Góð regla fyrir alla og sérstaklega þá sem eru að byrja er að reyna að skipta rammanum í þrjá hluta og staðsetja myndefni ð á skiptilínunum. Til þess eru línurnar í viewfinderunum (kíkjugatinu) gagnlegir. Þetta passar að myndefnið lendir helst ekki eitt og sér í miðjunni á myndunum sem verður mjög leiðigjarnt og óspennandi. Í fjallaleiðöngrum eru flottustu myndirnar þegar allir eru á ferðinni eða að gera eitthvað. Nestispásur og hvíldarstopp eru ekki flottustu og eftirminnilegustu móment fjallaferða, a.m.k. ekki í minni reynslu. Því skiptir máli að geta gripið upp vélina hvenær sem er á sem minnsta tíma. Takið myndir af fólki á miðri göngu, þegar það er að brölta upp grjót, kletta eða íshöft. Það getur þýtt að vera á undan, hlaupa framúr og sjá ýmislegt fyrir.
Hægt er að velja flottar „fótógenískar“ leiðir uppá fjöll þar sem farið er aðeins út fyrir venjulegheitin:

  • • Farið yfir hluta sprungunnar í stað þess að hliðra langt út fyrir þær. Varlega þó!
  • • Farið í bröttu brekkuna eða undir háu klettanna.
  • • Hryggir geta verið mjög ljósmyndavænir.

Nokkrar ábendingar:

  • • Notið ísaxirnar sem þið eruð með, það er bæði þægilegra að nota hana til stuðnings og til að krafsa eftir festum og það er líka mun flottara á myndum að sjá fólk krafsa með öxunum.
  • • Klæðist lituðum jökkum. Það er ekkert leiðinlegra en að skoða myndir af fjallafólki sem er alklætt svörtu.
  • • Göngustafir þvælast fyrir ljósmyndurum en þeir sem geta ekki án þeirra verið geta stungið þeim milli baks og bakpoka á fljótan hátt til að munda vélina.
  • • Ef myndavélataska hamlar myndatöku, setjið þá vélina bara um hálsinn og setjið hana inná jakkan milli myndataka, þannig tekur stuttan tíma að grípa hana upp.

JPG eða Hráskrá (RAW)
Ég tek allar mínar myndir í RAW. Eftir að hafa horft á eftir nokkrum flottum sem hefði verið hægt að bjarga eða gera enn flottari með Raw ákvað ég fyrir löngu að taka allar mínar myndir í Raw. Með því að taka í Raw er hægt að stilla birtu, contrast, liti ofl. á mun öflugari vegu en með venjulegri JPG mynd. Gallinn við Raw hinsvegar er að skrárnar eru miklu stærri og þyngri í vinnslu. Við venjulega notendur sem vinna ekki mikið með myndirnar myndi ráðleggja að nota JPG en við þá sem vilja ganga lengra og vinna myndirnar og þróa sig meira áfram eiga tvímælalaust að nota RAW.
Rafhlöður
Rafhlöður eiga það aldeilis til að verða tómar. Takið með ykkur allavega eina auka rafhlöðu og ALLS EKKI GEYMA HANA Í BAKPOKANUM! Köld rafhlaða = straumlaus rafhlaða. Þegar menn þurfa að fara mjög sparlega með rafhlöður í lengri ferðum hafa þeir allavega 2 stk með og skipta reglulega á milli þannig að rafhlöðurnar eru af og til geymdar innanklæða í hitanum og ná þannig upp spennunni aftur áður en þær fara svo út í kuldann aftur. En fyrir dagsferðir dugar að klára eina rafhlöðu og setja svo hina heita og ferska í myndavélina. Sumar nýjar myndavélar eru hinsvegar orðnar svo sparsamar á rafhlöðuna að hægt er að skjóta vel yfir 1000 myndir pr/hleðslu svo oft dugar að taka eina rafhlöðu með.
Minniskort
Í fjallaferðum tekur maður oft margar myndir ef aðstæður eru góðar. Því skiptir máli að vera með nóg minni til staðar. Ég er að nota 32Gb kort og næ ég að taka um 1200 raw myndir á það sem dugar í flestar dagsferðir. Ef það dugar ekki á ég annað 32Gb kort ásamt minni aukakortum.

Þennan pistil skrifaði ég fyrir 3 árum síðan en birti aldrei svo nú var kominn tími til en það þurfti þó að uppfæra hann lítillega til nútímans.

Guðmundur F Jónsson


Þín skoðun

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::