04.01.2014 - Fjallamennska

Skessuhorn

Þessi jól fórum við bara 2 í Skessuhornsferðina, Gummi og Haraldur Örn og var þetta í raun og veru bara skyndiákvörðun þar sem ekki var hægt að vera bara heima og þurfa jafnvel að fara að taka til eftir jólin og hvað það nú heitir alltsaman. En þar sem við fórum í ísklifur á 2. í jólum var alltaf eftir að hjóla í Skessuna góðu og er þetta nú bara orðið árlegt verkefni hjá Gumma sem þarf að klára, líkt og að skreyta jólatréð og taka það niður eftir jól, það þarf bara að gerast.

Veðrið var ágætt í Kópavoginum um morguninn og var því ekki neitt að gera nema kanna aðstæður í Skarðsheiði til að finna eitthvað meira spennandi veður. Vegagerðarskiltið á Kjalarnesi og Hafnarfjalli sýndu eitthvað um ~30m/s í hviðum og var því kjörið að skoða hrygginn þennan dag.
Eins og vanalega síðan 2006 er lokað hlið þegar að bænum Horni er komið og var því bara lagt við afleggjarann og hliðið. Enn og aftur rifjar maður upp sögur af gamla manninum sem bjó þarna 2006, mætti útá hlað hálf hangandi á stafnum og brosti nánast allan hringinn við að fá heimsókn og það af fjallamönnum. Hans er sárt saknað, en nú er bara læst hlið við veginn og mannlaust hús og í það eina skipti sem einhver var heima var maður ekki velkominn á svæðið, en förum ekki nánar útí það hér.

Þykkur þokubakki lá yfir allri Skarðsheiði og vonuðumst við aðallega eftir að hann myndi lyfta sér eða fara þar sem bjart var yfir norðanverðum Borgarfirðinum. Það var ekki mikill snjór á fyrripart heiðarinnar ofan Horns en þegar ofar dró varð alveg hvítt yfir öllu.
Þegar ofar var komið í heiðina gengum við upp í þokuna og var skyggni nánast ekkert, kannski 20 metrar og þá sá maður bara glitta í grjót hér og þar uppúr snjónum sem blandaðist algjörlega þokunni. Vegna þessa varð þetta að fyrsta skiptinu sem við lendum í því að þurfa að leita af fjallinu sem á að fara að klifra og kom GPS tækið sér þá vel.

Tókum smá pásu á pallinum undir hryggnum þar sem við borðuðum og prufuðum lifesystems 2 manna shelterið sem er fjandi gott í svona roki og kulda áður en við lögðum svo af stað í hrygginn sjálfann.
Hryggurinn var í mjög skemmtilegum aðstæðum að þessu sinni en það var nóg af snjó og mikil ísing sem brotnaði við það eitt að vera snert. Undir þessu öllusaman var svo ís á milli steina í bland við frosinn mosa svo klifrið gekk bara prýðlega þó að það sé ekki eins þægilegt og í apríl þegar allt er yfirleitt komið á kaf.
Þegar á toppinn var komið var stutt koníakspása en það er þægilegt ofaná svona tindi að það er nánast logn á honum þegar svona mikið rok er þar sem uppstreymið virkar eins og veggur á megin vindinn. Á niðurleiðinni er alltaf gott að vera með GPS og eiga punkt á fyrstu mögulegu snjórennuna niður, en það kemur manni alltaf á óvart hvað maður þarf að fara langt útá tengihrygginn áður en maður getur farið að lækka sig og maður finnur kannski meira fyrir því í svona blindu.

Myndir


Þín skoðun

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::
Kort Hvar á landinu
Leiðir í grein