08.10.2015 - Annað

Víkingar yfir Makedóníu

Lýðveldið Makedónía sem varð til við upplausn Júgóslavíu árið 1991 er ekki beint hinn týpíski áfangastaður meðal íslenskra ferðamanna en sem áfangastaður fyrir svifvængjaflugmenn þá er hann fullkominn. Árið á undan fór þangað vaskur hópur íslendinga og þóttist sú ferð heppnast mjög vel. Ágústa Ýr og Þorri Gestson (Þórgústa) hafa eytt miklum tíma þar í landi og voru bæði mjög spennt að endurtaka leikinn og fá annan hóp íslendinga til landsins í æfingabúðir að læra termíkflug* undir leiðsögn meistara Igor Todevsk sem er þaulreyndur flugmaður. Ágústa var með kynningu á félagsfundi Fisfélagsins fyrr um árið þar sem Arnar var viðstaddur og náði að sannfæra hann ásamt fleirum um ágæti þess að skella sér til Makedóníu í tvær vikur að fljúga. Í framhaldinu sannfærði Arnar Óðinn um að skella sér með.

*Svifvængir haldast á lofti með því að svífa á lofti sem er að leita upp, ein leið til þess er að fljúga inn í vermikviku (termík) sem eru bólur af lofti sem innihalda heitara loft en loftmassinn í kringum þær og rísa þær því upp í lofthjúpinn þar til þær liðast í sundur og blandast við restina af loftmassanum. Með því að hringa sig inní þeim er hægt að ná mikilli hæð og svífa langar vegalengdir.

Þar sem ekkert beint flug er til Makedóníu frá Íslandi var fyrst flogið til Gautaborgar og þaðan til Skopje höfuðborgar Makedóníu en þar beið langferðarbíll sem tók okkur beinustu leið til Krusevo sem er sögufrægur bær upp í fjöllunum inn í miðju landinu. Þreyttir eftir langt ferðalag í gegnum nóttina komum við loksins á áfangastað rétt fyrir kvöldmat en í stað þess að fara beint upp á gistiheimili þá var ákveðið fara upp á aftökusvæðið við Krusevo, draga upp vængina og taka eitt stutt flug á meðan tími leyfði en þaðan áttum við mjúkan langan sleða niður fjallið. Þreytt en sátt eftir ferðalagið og fyrsta flugið komum við okkur fyrir á gistiheimilinu hans Igors og héldum svo saman í bæinn þar sem við kynntumst Makedónískri matarmenningu.

Þar sem við vorum mætt þarna til að fljúga þá var engin miskun og því vaknað snemma, borðaður morgunmatur og farið beint uppá aftökusvæðið þar sem Igor beið okkar og fræddi okkur um svæðið, grunn hugmyndafræðina á bakvið termíkflug og lagðar línurnar um hvað má og hvað má ekki. Eftir fundinn var svo ekki eftir neinu að bíða og vængirnir teknir á loft hver á fætur öðrum með það að markmiði að reyna að halda sér eins lengi í loftinu og hægt væri. Gekk það svo sem billega fyrir flesta en þar sem loft er að fara upp þá er loft líka að fara niður. Arnar misskildi þetta eitthvað og leitaði bara eftir niðurstreymi sem endaði með því að hann fékk að kynnast flóru landsins náið með því að lenda og knúsa þennan fína gaddarunna dauðans og blóðga sig allan og flækja vænglínurnar í honum. Þónokkurn tíma tók að leysa úr þessu ástarsambandi og þegar hann kom í skutluna hafði Igor ákveðið að fresta meira flugi í bili þar sem veðuraðstæður voru orðnar varasamar en myndu svo að öllum líkindum lagast seinna um daginn. Stakk þá Ágústa upp á því að hópurinn færi að synda í vatninu fyrir ofan bæinn til að kæla sig niður. Að sjálfsögðu var vel tekið í það enda hitinn vel yfir 30°C. Eftir hressandi sundsprett var svo aftur farið uppá aftökusvæðið og síðasta flug dagsins tekið.

Fyrstu dagana eyddum við í Krusevo þar sem flogin voru hátt í 3-4 flug á dag. Einn daginn náðu margir vel upp fyrir 2000m sem reyndist góður grunnur fyrir langflug suður meðfram fjallinu og þegar ekki var komist lengra var lennt við næsta bæ, vængnum pakkað saman og strunsað beint í næstu búð að finna sér ískaldan lendingarbjór á meðan beðið var eftir bílstjóranum okkar Adem. Igor vildi þó hafa okkur fyrst um sinn sem mest þar sem hann gat fylgst með okkur og leiðbeint okkur í gegnum talstöðina og sættust menn á það. Fljótlega náði hópurinn ágætis takti við að hanga inn í bólum og hringa sig í þeim upp í háloftin ásamt því að nýta hvert annað við að finna nýjar bólur. Ágústa og Þorri flugu einnig með okkur og hjálpuðu með því að garga misskýr skilaboð til okkar.

Eftir að hafa hangið við Krusevo í nokkra daga var haldið á nýjar slóðir við góðar undirtektir enda flestir spenntir fyrir því að fljúga á nýjum stað. Flugsvæðið kallast Rocky Mountain og er rétt utan við bæ sem heitir Prilep. Gamalt klaustur er upp á fjallinu og meðan við biðum eftir að flugaðstæður skánuðu var kíkt á herlegheitin, myndir teknar og skundað svo niður á aftökusvæðið þar sem hópurinn tók á loft. Úr varð fínasta flug í flottu landslagi en reyndist í hvassara lagi svo haldið var aftur til Krusevo þar sem við náðum einu fallegu kvöldflugi einnig á nýjum stað.

Eftir góðan dag var ákveðið að kíkja í einn bjór og fara svo í gufubaðið á gistiheimilinu áður en við færum í háttinn, það var föstudagskvöld og mikil stemmning í bænnum sem og í hópnum okkar, var því lítið úr því að láta bara einn bjór duga og ferðinni í gufubaðið breytt í ferð á diskótek bæjarins. Eftir að hafa málað bæinn rauðan var vaggað uppá gistiheimilið seint um nóttina. Eitthvað reyndist erfiðara en vanalega að koma sér út í bílinn daginn eftir en hafðist þó og var bílferðin sem að þessu sinni var 2.5 tíma akstur til Ohrid vel nýtt í heiðarlega tilraun til að jafna sig eftir stuð gærdagsins.

Þegar við nálguðust Ohrid var enn nokkuð hvasst og fórum við því ekki á hefbundna aftökusvæðið heldur upp á annað fjall nær bænnum. Enn var næturgamanið eitthvað að þvælast fyrir sumum og því baráttuviljinn ekki mikill fyrir átökin að halda sér almennilega á lofti. Lendingardrykkurinn var svo tekinn á flottum bar niður við stöðuvatnið. Oft er óflughæft seinnipart dags þarna á svæðinu og því málið að skella sér í vatnið. Fórum við í lítinn bæ rétt sunnan við bæinn Ohrid þar sem við tókum sundsprett, klifruðum og hoppuðum fram af litlum kletti sem stóð upp úr vatninu, borðuðum nýveiddan fisk og keyrðum svo sæl en þreytt aftur til Krusevo.

Næstu daga eyddum við svo í Krusevo þar sem skerpt var á flughæfileikunum og Igor tók nokkra úr hópunum í tandem flug. Einn dagur var þó ekki flughæfur vegna hvassviðris í háloftunum og var sá dagur nýttur í skoðunarferð að öðru stöðuvatni nálægt Ohrid. Fleiri langflug voru svo tekin meðfram fjallinu við Krusevo.

Hápunktur ferðarinnar var þó næstsíðasta daginn okkar. Hvesst hafði við Krusevo og leit út fyrir að við myndum ekki ná að fljúga fyrr en seinna um daginn en pínu séns var að ná flugi við Ohrid vatn. Ákváðum við að taka áhættuna og skella okkur til Ohrid sem reyndist vera hin besta ákvörðun. Áttu allir snilldar flug á þessum gullfallega stað og var ekki hægt að byðja um betri endi á ferðinni. Arnar ákvað að fara í tandem flug með Igor og taka myndir af hópnum úr lofti, auk þess að læra undirstöðuatriðin í að gera wingovers. Eftir að allir voru lentir var náttúrulega eina vitið að skella sér í vatnið og heim aftur til Krusevo.

Nokkur flug til viðbótar voru kreist út úr lokadeginum okkar, því næst var að pakka saman en þar sem við áttum ekki flug fyrr en seint um nóttina var farið á smá bjórrölt með Igor sem endaði í alherjarstuði og misstum við næstum af skuttlinu upp á flugvöll en það hafðist þó og nokkrum tímum seinna voru við mættir til Gautaborgar þar sem beið okkar þónokkur bið, hausverkur og meiri bið sem við náðum að gera bærilegri með því að panta okkur herbergi á gistiheimili þar sem við náðum nokkrum klukkutímum af hvíld áður en við loksins komust uppí vél og þaðan heim á klakkan.

Myndir


Þín skoðun

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::