29.04.2008 - Annað

Arnarfell hið mikla

Besta spáin á sumardaginn fyrsta var auðviðtað bara á mið-hálendinu og því brugðum við á það ráð að fara í skíðaferð utaní Hofsjökul á Arnarfell hið mikla. Ég, Stefán og Þórhallur lögðum af stað á 143. tind Þórhalls af listanum íslensk fjöll.
Við fengum mjög ákjósanlegt veður og náðum uppá hálendi áður en það fer allt í krapa og drullu. Við keyrðum að Kvíslárveitum og gengum þaðan á skíðum. Við komum auðvitað fyrst við á Arnarfelli hinu litla ( sem er nú reyndar örfáum metrum hærra ). Gengum svo uppí jökul, bakvið það og yfir Rótarjökul, sem er skriðjökull sem liggur niður á milli þeirra.

Nóg var af snjó á svæðinu, en hann var orðinn blautur og þungur. Þjórsárverin voru vel þakin snjó, en á einstaka stað var gat í snjónum þar sem maður sá smá straumvatn renna undir.
Þegar við vorum nýlagið af stað keyrðu framhjá okkur vélsleðamenn sem voru trúlegast á leiðinni inní Setur.

Dagurinn var með besta móti og var ég ber að ofan lengst af til dagsins til að fá sem mestan lit. Þegar heim var komið og ég sást var haft orð á því að ég liti út eins og Bjarnabófarnir í Andrésar andar blöðunum vegna sólgleraugnafara, en ég var ekki alveg nógu duglegur að taka þau af mér af og til..

Göngulengdin voru rúmir 27km, og tók þetta um 9 tíma, enda vorum við ekkert að flýta okkur, tókum slatta af myndum og nutum góða veðursins.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég geng á skíðum, en ég fékk mér fjallskíði um daginn og er að komast inná að nota þau. Ég hef ekki skíðað í svona 5 ár og hef aldrei gengið á skíðum. Þetta tekur svoldið öðruvísi á heldur en að sviga eða ganga bara á skóm/þrúgum, lenti í að fá óþægilega blöðru á hælinn sem ég verð að bíða eftir að grói áður en haldið verður í næstu ferð. Ég gekk bara á Ice Evo klifurskónum, en það er hægt að smella þeim í bindingarnar.

Myndir


Þín skoðun

Ivar F. Finnbogason skrifaði þann 13.05.2008 Klukkan 07:07

Ég sé að þið Þórhallur eruð á klifurskónum, voru þeir bara í bakpokanum eða ertu með einhverja snildar lausn til að festa þá við gönguskíðin? kv. Ívar

Gummi St. fannst ekki ( Vefsíða ) skrifaði þann 13.05.2008 Klukkan 13:23

Sæll Ívar, Ég var á klifurskónum í þessari ferð en held að ég geri það ekki aftur, þeir nudduðu mig alveg hrikalega og þurfti ég að vera grounded í 2 vikur meðan það greri.. Kannski var það það að fara í fyrstu skíðaferðina svona langa (30km)... ég vill nú meina að það séu skórnir. en allavega að þá er ég með fritschi bindingar á bd skíðin hjá mér og get því bara smellt þeim á.. Þú getur alveg komið og skoðað þetta ef þú vilt..

Arnar Páll fannst ekki ( Vefsíða ) skrifaði þann 18.05.2008 Klukkan 19:55

Flott ferð þarna. Magnað að arnarfell hið litla er hærra heldur en það mikla hehe. En svona er að vera á gönguskíðum. Ekki víst til neinar aðrar aðferðir við að fara niður brekkur á þeim heldur en að detta niður þær.

Ívar Þ. fannst ekki ( Vefsíða ) skrifaði þann 19.05.2008 Klukkan 16:07

Í hvaða skóm ertu Gummi? Sé ég rétt að þetta eru La Sportiva Nepal Extreme? Er bara að tékka vegna þess að þú minnist á hvað þeir nudduðu þig mikið. Ég á par af nepal extreme skónum og get ekki gengið öðruvísi í þeim en að fá blöðrur fyrir allan peninginn á hælana. Er búinn að reyna ýmislegt, hafa mismunandi vel reimað, með og án tungunnar osfrv. en ekkert gengur :(

Gummi St. fannst ekki ( Vefsíða ) skrifaði þann 19.05.2008 Klukkan 17:18

Sæll Ívar, ég er að nota LaSportiva Ice evo. Fór í þeim á Hrútfjallstinda um helgina og fann ekkert fyrir þessu, þetta var bara útaf öðruvísi beitingu á skíðagöngunni.

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::
Kort Hvar á landinu