Kverkfjöll
Nýlega voru stofnuð samtökin Vinir Vatnajökuls og var opnuð vefsíða í því tilefni, www.vinirvatnajokuls.is
Af vef þeirra:
Vinir Vatnajökuls eru hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðar. Hlutverk samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og
fræðslustarf sem stuðla að því að sem flestir geti notið þeirra náttúrufyrirbæra og þeirrar sögu sem þjóðgarðurinn hefur að geyma. Með sameiginlegu
framlagi innlendra og erlendra einstaklinga, fyrirtækja, félaga og stofnana geta Vinir Vatnajökuls styrkt góð og mikilvæg verkefni.
Við ákváðum í flýti þrír félagar að skella okkur í Kverkfjöll vegna einstaklega góðrar veðurspár. Við lögðum því af stað á fimmtudagskvöldi eftir vinnu um kl. 21.30 úr bænum og brenndum mjög óbeina leið uppí Sigurðarskála. Sprengisandur, ásamt nær öllu hálendinu var enn lokaður og því þurftum við að keyra gegnum Mývatn og Möðrudal og þar niður í Krepputungur og þaðan í Kverkfjöll þar sem við mættum hressir kl. 6 um morguninn.
Eftir góðan morgunlúr héldum við að Kverkjökli og skoðuðum íshellinn þar í góða stund, þar fengu myndavélarnar aldeilis að finna fyrir því og var skotið grimmt í honum. Einnig gengum við aðeins uppí Kverkjökulinn og miðað út hvar við skyldum fara upp daginn eftir.
Á Laugardeginum vorum við enn hálf þreytulegir, en náðum þó að drattast af stað og héldum upp í Kverkfjöllin. Eftir að hafa legið svoldið yfir kortunum kvöldið áður var spurning um hvort við myndum fara bara á vestari kverkina eða fara yfir á eystri kverkina líka eða jafnvel á hæsta tind svæðisins, Jörfa sem er 1929m hár og gengur einnig undir nafninu Skarphéðinstindur og er talsvert innarlega í eystri Kverkfjallahryggnum.
Þegar við lögðum af stað ákváðum við þó að taka ekki skíðin með þar sem þetta leit ekki mjög snjóalega út, en ég tók þó snjóþrúgurnar með og sá alls ekki eftir því, enda æðisleg verkfæri í svona ferðum, vigta andskotann ekki neitt og gera heldur betur gæfumuninn þegar á reynir.
Við gengum upp Kverkjökulinn í átt að vestara Kverkfjalli og fylgdum kverkinni uppá hæsta tind þar sem er 1799m hár. Ég var auðvitað stoppandi á öllum stöllum þar sem ég gat tekið myndir en ég tók líka með mér þrífót, auka linsu og panorama haus á þrífótinn til að ná örugglega öllu sem mér datt í hug og sé alls ekki eftir því. Þegar á hæsta tind vestra Kverkfjalls var komið tók við löng slétt snjóbreiða í átt að Hveradal og skála Jöklarannsóknarfélagsins. Strákunum leist nú vart á þetta, en ég óð auðvitað bara af stað eins og vitlaus maður vitandi að við tæki ótrúlegt ævintýraland þar sem jarðhiti mætir jökulís með öllum tilheyrandi tilþrifum. Ekki sáu þeir eftir þessari ferð þegar yfir var komið, svo stórkostlegt var útsýnið. Við gengum í skálann og settumst niður, hvíldum okkur og fengum okkur að borða.
Aðeins nokkrum dögum á undan okkur var kvikmyndateymi á svæðinu að taka upp myndir í íshellum og voru för eftir það útum allt þarna, jeppaför, fótspor, vélsleðaför og snjóbílsför ásamt því að við höfðum heyrt af nokkrum þyrlum í þokkabót. Þau voru þó haldin á brott og eftir stóð fjallið autt í þessu líka blíðskaparveðri.
Útsýnið á leiðinni upp var ótrúlegt. Í Vestur sáum við Bárðabungu, Kistufell, Urðarháls og Trölladyngju. Í norður sáust Askja, Herðubreiðartögl, Herðubreið, Upptyppingar, Vaðalda, Kverkfjallarani, Kverkhnjúkar, Virkisfell. Og í Austur sáum við að Hálslóni óskýrt, en við blasti Snæfell hinumegin við eystri Kverkfjall.
Þessi staður er alveg magnaður og munum við pottþétt koma hingað aftur í ævintýraleit, þá með skíði og jafnvel eitthvað meira til að fara um allt svæðið þarna uppi. Aldrei að vita nema maður láti sklija sig eftir þarna og sækja sig svo eitthvað annað.
Myndir
Þín skoðun
Gummi St.
fannst ekki
( Vefsíða )
skrifaði þann 06.07.2009 Klukkan 02:34
Þetta er fyrsta grein í nýju vefkerfi okkar, við erum að uppfæra gömlu greinarnar, þýða þær á ensku ofl. Endilega látið okkur líka vita ef þið rekist á einhverjar villur. Njótið vel, kv. Gummi St.
Arnar Páll Birgisson
fannst ekki
( Vefsíða )
skrifaði þann 08.07.2009 Klukkan 22:41
Helvíti eru þetta flottar myndir hjá þér... nýja lúkkið er líka mjög vel heppnað
Jón Gauti
fannst ekki
( Vefsíða )
skrifaði þann 22.07.2009 Klukkan 10:01
Virkilega fallegar myndir hjá þér Gummi af þessu stórkostlega svæði. Á enn eftir að gera því jafn vel skil og þú og þínir hafið gert.
Páll Ásgeir
fannst ekki
( Vefsíða )
skrifaði þann 24.07.2009 Klukkan 21:54
Nýtt útlit síðunnar hefur heppnast vel.
Myndirnar afbragð að vanda og texti ítarlegur og góður. Mig langar inn í Kverkfjöll eftir lesturinn.
skrifa komment