Rjúpnafell
Flottur hópur útivistarfólks Valitor ætlaði að ganga Fimmvörðuháls laugardaginn 4. september en vegna óvæntrar heimsóknar fellibyls frá Ameríku sem var að setja vindstyrk á hálsinum um og yfir 30 metrana var ákveðið að halda ekki á hálsinn en leggja á Rjúpnafell í staðinn.
Við hittum hópinn á leið útúr bænum þar sem tvær rútur tóku mannskapinn og keyrðu með í Þórsmörk. Við fórum á eigin bíl þar sem við ætluðum að fara heim um kvöldið eftir ferðina þar sem Gummi var að fara til Grikklands strax á mánudaginn og var auðvitað ekki einusinni byrjaður að hugsa um að pakka.
Á leið í Mörkina ákvað ein rútan að setjast á bossann í einni kvíslinni en því var fljótt reddað þar sem traktorinn úr Langadal fann ekki svo mikið fyrir henni í eftirdragi.
Fljótlega var lagt af stað úr Langadal og gengið Tindfjallahringinn með útúrdúr á Rjúpnafell fyrir þá sem vildu.
Mikil aska var í Þórsmörkinni og fauk hún duglega upp í vindhviðunum þegar vindarnir létu til sín heyra.
Uppferðin á Rjúpnafell var mögnuð, skemmtilega brött brekka og margir tala um að þetta sé ekki fyrir lofthrædda. Mjög mikill vindbelgur var á toppnum sem kom ofanaf Mýrdalsjöklinum og fóru því ekki allir alveg uppá topp þar sem við þurftum að ganga dáldið á fjórum fótum.
Allt gekk vel og á leiðinni til baka kláruðum við svo Tindfjallahringinn og komum svöng og sæl niður í skála, fallega drullug í framan eftir öskufokið.
Um kvöldið var svo veisla en við strákarnir yfirgáfum partýið þar sem undirbúningur fyrir næstu ferð beið heima.
Viljum þakka samferðafólki okkar í ferðinni fyrir góða og ánægjulega ferð, það er greinilega margt hörku útivistarfólk að vinna þarna.
Myndir
Þín skoðun