01.07.2013 - Klettaklifur

Boreal

Þessi nýja klettaleið sem klifursamfélagið hefur beðið með eftirvæntingu var heimsótt báða daga helgarinnar 22. og 23. júní. Deginum áður höfðu nokkrir Ísalparar farið í leiðina og fórum við því í glóðvolga leiðina á sunnudeginum.
Arnar, Davið, Gummi og Óðinn fóru saman í þessa ferð og keyrðum við austur seinnipart laugardagsins. Við vorum þó ekki komnir undir Vestrahorn fyrren uppúr miðnætti og hófst þá leit að tjaldstæði. Fundum við þar ágætis tjaldstæði á milli kletta við rústir af gömlum húsum sem hentaði ágætlega. Þá var loksins farið að sofa rétt um kl. 2.

Við ákváðum að taka hálfgert alpastart á þetta og vöknuðum kl. 6 og byrjuðum á rólegum morgunmat og að græja okkur í leit að leiðinni. Það tekur smá tíma að ganga upp brekkuna og upp gilið að rótum leiðarinnar og vorum við ekki komnir að leiðinni fyrren uppúr kl. 9.
Óðinn reið á vaðið og tók fyrstu spönn með Adda í eftirdragi. Davíð fékk svo heiðurinn á að leiða fyrstu spönn sína á þessum stað einnig með Gumma í eftirdragi. Eftir 2 spannir var komin mikil þoka og mikil bleyta var í byrjun 3. spannar sem varð til þess að Óðinn og Arnar voru stopp og hugsuðu um hvort þetta væri geranlegt í þessari bleytu þar sem maður rann af öllum gripum og þá kannski sértaklega fæturnir.

Gummi ákvað þá að reyna og skipti við Óðinn um línu og sem betur fer var bara bleytan neðst í þessari spönn svo þetta lagaðist mjög fljótlega þegar ofar dró og maður búinn að þurrka neðanaf skónum nokkrum sinnum. Þarna tóku hinar raunverulegu "klifurspannir" við enda um 480m há leið sem ætlaði aldrei að taka enda. Það að vera 4 saman og klifra nánast alltaf saman tók mjög langan tíma og tafði okkur helling. Einnig það að sjá mjög lítið vegna þokunnar hafði sín áhrif.

Leiðin var mjög skemmtileg, ekki tæknilega erfið en löng og nokkuð orkukrefjandi þegar á heildina er litið. Síðustu 2 spannirnar fóru eiginlega framhjá okkur, en Gummi fór einhverjar aðra leið upp frá næstsíðasta akkeri þar sem hann sá ekkert þar fyrir ofan (kannski vegna þokunnar) en endaði á að losa sig úr línunni þegar Addi vildi ekki elta hann lengur og fara réttu leiðina sem var fundin og kláraði laus uppá topp og beið eftir hinum. Þessi síðast kafli er nú bara hálf venjulegt fjallabrölt en á toppnum er alveg örugglega mjög flott útsýni sjáist eitthvað fyrir þoku.
Þá hófst niðursigið og þegar menn hafa nánast ekkert stundað nema ísklifur þar sem línan rennur vel á öllu að þá eru sumir sem eru mjög mikið í því að flækja línurnar og láta þær festast í öllu sem hægt er og fengum við að kynnast því aðeins þangað til að okkur datt í hug að feeda línuna gegnum karabínu í lykkju niður til þess sem seig fyrstur að þá lentum við ekki í því aftur.

Sigið niður tók þónokkra klukkutíma þar sem flækjur tóku sinn toll, aðallega til að byrja með og einnig þegar allir 4 þurfa að síga og koma sér fyrir á millistönsunum meðan línan er dregin niður og fest aftur. Allt hafðist þetta þó fyrir rest og skiluðum við okkur niður í bíl 17 tímum síðar hálf svangir og þreyttir eftir daginn.
Þetta hafði tekið miklu lengri tíma en við höfðum reiknað með og þurftum við allir að mæta í vinnu daginn eftir og var því tekið á það ráð að keyra í bæinn yfir nóttina. Við skiptumst á að keyra og tók Addi fyrstu vaktina. Þegar hann var farinn að sjá ofsjónir á veginum kringum Kálfafellsdal skipaði Gummi honum að stoppa og tók hann við þar. Gummi keyrði þaðan í Skaftafell þar sem við lögðum okkur í klukkutíma á bílastæðinu í bílnum til að ná smá orkublundi og tók þar Addi aftur við eftir að hafa sofið meðan Gummi keyrði og á bílastæðinu.
Addi keyrði á Vík þar sem Óðinn tók við og keyrði á Hvolsvöll og í fyrsta skipti frá því að við byrjuðum að ferðast þar sem við höfum oft lent í að allt sé lokað á leiðinni heim að þá var búið að opna bakaríið á Hellu aftur þar sem klukkan var orðin 7. Því var komið þar við og keyptum kaffibolla og bakkelsi til að hlaða aðeins inná batterýin.
Lentum í bænum rétt uppúr kl. 8 og fóru einhverjir beint í vinnuna á fyrsta fund dagsins meðan aðrir lögðu sig aðeins. Allir þreyttir og sáttir eftir góða og erfiða helgi.

Video

Myndir


Þín skoðun

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::
Kort Hvar á landinu