18.06.2012 - Fjallamennska

Hrafntinnusker

Skyndiákvarðanir eru oft bestar. Þegar veðurspáin segir heiðskýr helgi og blíðviðri þá er ekki um annað að ræða en að finna sér félaga og drífa sig á fjöll. Fyrsta helgin í júní var a.m.k. slík.
Gummi fékk Einar Val vinnufélaga sinn með sér að þessu sinni. Ekki þurfti mikið til að fá Einar í slíka ferð enda mikill náttúruunnandi og ber hlýjan hug til svæðisins.

Ferðin var aðallega hugsuð sem ljósmyndatúr ásamt því að prufa bivy pokana sem við fengum okkur snemma í vor. Við höfðum ekki notað slíkan poka áður svo það var upplagt að nýta ferðina sem best, fara eitthvað vel áleiðis inní sker, sofa úti og ganga svo til baka á sunnudeginum.

Við mættum uppí laugar eftir að hafa komið við hjá pabba Gumma í góðan hádegispottrétt. Eftir gott spjall við skálaverðina sem voru að undirbúa sumarið ákváðum við að leggja af stað. Við tókum með okkur gönguskíði/skó og þess utan vorum við bara með létta íþróttaskó sem var bara þægilegt og gegnum við á þeim yfir hraunið og réðumst svo í snjóbrekku sem lá upp gilið vestan megin í Brennisteinsöldunni. Þegar við komum uppfyrir Ölduna var snjórinn á þrotum og gengum við langleiðina upp að Stórahver áður en við komumst á skíðin aftur. Greinilega hafði snjó létt snemma af hryggnum milli Brennisteinsöldu og Stórahvers þar sem greinileg vélsleðaför voru alla leiðina. Þrátt fyrir að leiðinlegt sé að sjá slík för vorum við ánægðir með að þeir héldu sig þó á göngustígnum svo það hverfur strax og göngutímabilið byrjar af viti.

Gilin við Stórahver voru mjög flott, snjór, gufa, hiti, vatn og hverir einkenndu staðinn og við blöstu fallegar andstæður svæðisins og öll form vatns. Eftir góða mynda- og kaffipásu héldum við svo áfram för í Hrafntinnusker. Þegar komið var að Höskuldsskála hittum við indæl hjón frá Slóvakíu sem voru á ferð um laugaveginn í Þórsmörk og tjölduðu á pallinum í skerinu.
Eftir gott spjall við fólkið og kvöldmat héldum við áfram för og héldum upp Reykjafjöll. Þaðan sáum við vel niður í upphaf Jökulgilsins og sáum greinilega Hattinn sem Hattver er kennt við. Á syðri-Reykjarkoll ákváðum við að búa okkur til bivy stað í 1150m hæð og fórum uppá tind þar sem endurvarpinn er til að fylgjast með miðnætursólinni. Eftir góðan tíma þar og facebook-nörda statusa ákváðum við svo að skríða ofaní poka í nokkra tíma og halda svo áfram að Kaldaklofi og fram á brún til að horfa yfir syðra-Fjallabakið að Álftavatni.

Eftir tveggja tíma svefn vaknaði Gummi við umgang og var þá Einar að gefast upp á að sofa í snjónum, hann hafði eingöngu þunna dýnu með en ekki loftfyllta einangrunardýnu og var mjög kaldur þegar hann lá í pokanum þar sem hann varð alltaf kaldur á þeirri hlið sem hann lá og hafði ekki sofið nema kannski í hálftíma. Hitastigið var eitthvað um -5 °c. Þá var lítið annað að gera en að hita sér kakó, gera sig klárann og halda af stað aftur.
Það passaði ágætlega því sólarupprásin var byrjuð og flott lýsing lá yfir svæðinu. Við gengum niður af Reykjakolli í átt að Háskerðingi og héldum svo vestur fyrir hann til að komast fram á brúnina á Jökultungunum.

Syðra fjallabakið var nánast snjólaust þó svo að gróðurinn væri ekki mikið tekinn við sér. Eftir góða myndapásu héldum við aftur að skálanum í Hrafntinnuskeri þar sem við fengum okkur almennilega máltíð, lögðum okkur aðeins áður en við héldum svo aftur niður í Landmannalaugar. Á leiðinni til baka hittum við svoldið af fólki, bæði útlendingum sem voru að skoða sig um og ætluðu í Álftavatn og aftur til baka og íslendinga sem voru í göngutúr. Þessi ferð er sú fyrsta í sumar á svæðið en allt stefnir í að þær verði nokkrar til að ná sem bestum myndum af svæðinu. Næst verður farið aftur þegar gróður er kominn vel af stað og þá verður annaðhvort Jökulgilið fyrir valinu eða Kaldaklof að Álftavatni.

Myndir


Þín skoðun

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::
Kort Hvar á landinu