29.05.2013 - Fjallamennska

Sveinstindur

Loksins kom ágætis veður í Öræfasveitinni og þá aðallega ausan megin í jöklinum meðan suðvestan áttin lét á sér bera hinumegin. Það hentaði okkur ágætlega þar sem við vorum í leiðangri að kanna leið Sveins Pálssonar fyrrverandi landlæknis upp austanverðan Öræfajökul frá Kvískerjum með áhugasama hópa Félgas íslenskra fjallalækna og Mammútstelpnanna en við höfum ferðast með þessum hópum áður í flottum ferðum.
Leiðin er mjög fáfarin og er kannski eiginlega að enduruppgvötast frá því að Sveinn Pálsson fyrrum landlæknir fór fyrstur upp leiðina en stöndum við nokkuð fast á því að þetta muni verða næsti "heiti reitur" áhugasams fjallafólks sem er jú stöðugt að leitast eftir nýjum viðfangsefnum. Nýleg leið liggur upp Ærfjallið aðeins norðar en sú leið er dáldið brattari og erfiðari yfirferðar og þessi því auðveldari og þá meiri líkur á að toppnum sé náð.

Leiðin byrjar rétt sunnan við Kvísker og er haldið upp heiði sem leiðir mann uppað jökulrönd undir Rótarfjallshnúks(eystri). Þaðan liggur leiðin upp hrygg milli Kvíárjökuls í suðri og Hrútárjökuls í norðri. Leiðin er einnig nokkuð tilkomumikil og ber þá helst að nefna alpaeinkenni leiðarinnar þar sem farið er á milli stórra úfinna skriðjökla sem maður sér vel stutt frá sér og einnig er gott útsýni á Hnappana sem gnæfa yfir Kvíárjökli og austur yfir Breiðamerkursand, Esjufjöll og í vestanverð fjöll Suðursveitar allt frá Felli, Þverártindseggjar og yfir á Snæfell syðra sem er norðan við Þverártindsegg.
Þegar ofar dregur í leiðina koma bæði Sveinstindur og Sveinsgnýpa í ljós. Sveinsgnýpa rís úr jöklinum, markar upphaf Kvíárjökuls og er upphafið á hryggnum sem Sveinstindur rís úr. Farið er nokkurnveginn yfir Sveinsgnýpu og yfir að Sveinstind. Á milli tindanna er hinsvegar dáldið um sprungur sem þarf að passa sig á.
Lokakafli leiðarinnar liggur svo upp brattan og mjóan hrygg sem leiðir á topp Sveinstinds en efst uppi er lítið skarð í tindinum sem þarf að fara yfir. Þessi hryggur getur þó verið varasamur þegar óhagstæð snjóalög eru og gæti verið sniðugt að fara vestur fyrir tindinn og ganga upp á hrygginn á milli Sveinstinds og Snæbreiðar ef hryggurinn er of hættulegur.

Gangan gekk vel og var mjög gott veður á leiðinni. Þegar við komumst á jökul og fórum að ganga í línu var orðið svo heitt að það voru nánst allir komnir úr bolunum og margir buxunum einnig! Þá var mikið fjör og skemmtilegar umræður sem byrjuðu fyrir alvöru þegar menn lentu í erfiðleikum með að bera sólarvörn á bakið á sér. Svo mikið var fjörið að umræður voru á tíma komnar útí hvort augnaðgerðir væru í raun fullnægjandi og að í dag eru menn farnir að taka með sér Viagra í háfjallaferðir til að sporna við skyndilegum stinningskalda.
Hvort þetta var sólstingnum að kenna eða hvort stemmingin hafi einfaldlega verið of góð verður kannski ekki rakið hér en allir komu heim endurnærðir af fjallaloftinu og tveimur nýjum tindum ríkari. Um kvöldið var svo dýrindis kvöldverður í Gerði austan við Breiðamerkursand þar sem stundir dagsins voru einnig rifjaðar upp.

Í lok ferðar var ákveðið að tala um þetta sem Læknaleiðina / Leið Sveins Pálssonar á Sveinstind og er þá verið að vísa til Sveins Pálssonar sem fór leiðina fyrstur eins og getið er í upphafi greinarinnar. Á leiðinni á að vera varða sem hann reisti, en þrátt fyrir leit var ekki staðfest að hún hafi fundist enda mjög mikill snjór á svæðinu sem hylur trúlegast gersemina sem var reist síðla sumars í uppferð Sveins.

Myndir


Þín skoðun

Gummi St fannst ekki ( Vefsíða ) skrifaði þann 30.05.2013 Klukkan 23:23

Það eru einnig góðar myndir á vefsíðu Félags íslenskra fjallalækna, www.fifl.is

Ólafur Már Björnsson fannst ekki ( Vefsíða ) skrifaði þann 29.07.2013 Klukkan 22:09

Flott auga Gummi - glæsilegar myndir

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::
Kort Hvar á landinu