Eftir langa bið eftir að komast í ísklifur var komið að jólaklifri Ísalp sem er árlegur viðburður þar sem klifrarar hittast saman og klifra í Múlafjalli. Þennan dag er alltaf góð mæting og mikil stemming í að setja upp ofanvaðsleiðir hægra megin við Íste.
Við fórum beint í Rísanda sem var í fínum aðstæðum, góður ís og mjúkur. Þar sem við höfum lítið klifrað upp á síðkastið tók smá stund að slípa sig til og klára leiðina. Leiðin kemur alltaf skemmtilega á óvart og í þetta skipti var smá mix-kafli í lokin upp á brún fjallsins þar sem ísinn hætti.
Á toppnum var að sjálfsögðu opnaður bjór, en þar sem jólabjórinn gleymdist í bænum var það "bara"
classic sem var opnaður í hans stað.
Á leið niður var komið við og kveðjum kastað á félaga okkar sem voru margir að klifra í leiðunum við Íste.
Um kvöldið var svo haldið útgáfuteiti vegna nýs ársrits Alpaklúbbsins og náði Gummi aðeins að kíkja við
til að sækja eintök fyrir okkur.
Sendum fjallafólki bestu jóla- og nýárskveðjur og sjáumst hress á fjöllum!