01.03.2007 - Ísklifur

Ísfestival, Köldukinn.

Ísklifurfestivalið var haldið í Köldukinn milli Akureyrar og Húsavíkur þetta árið. Herlegheitunum var hinsvegar frestað um eina viku til að erlendir gestir gætu tekið þátt. Það voru engir aðrir en Albert Leichtfried, Ines Papert, Markus Bendler og Audrey Gariepi. Allt topp klifrarar og topp 5 ísklifrarar í heiminum.

Festivalið var algjörlega til fyrirmyndar, mjög vel hugsað um allt og alveg frábært að geta komið við í stóru tjaldi á miðju klifursvæðinu og fengið sér heita kjötsúpu á milli leiða og fengið/gefið fréttir af klifurleiðunum. Alveg geggjað !

Gummi Stóri og Addi semsagt skelltu sér norður á fimmtudagskvöldið. Lögðum loksins af stað útúr bænum um kl. 21 um kvöldið. Við keyrðum mjög rakleiðis áfram með mjög fáum og stuttum stoppum. Þurftum þó að koma við á lögreglustöðinni á Akureyri í smá Tetra-erindagjörðum... Við lentum svo í Björgum (gististaðnum) um kl. 2:30 um nóttina. Þá var bara skellt sér í svefninn og vaknað milli kl. 8 og 9 á föstudeginum. Við skelltum í okkur smá morgunmat og fékk hún Helen að koma með okkur þennan dag því hana vantaði félaga. Við keyrðum framhjá öllu svæðinu og skoðuðum vel. Þetta voru mestallt alveg rosalegar leiðir sem eru fyrir þá allra bestu í bransanum. En þegar nær dró sjónum að þá voru einhverjar mannlegar leiðir inná milli. Við skelltum okkur í fína leið, okkur skildist að hún sé óklifruð og leiddi Addi hana upp. Þetta tók bróðurpart dagsins og skelltum við okkur svo niður í hús eftir þetta. Leiðin fékk nafnið Blár dagur, (WI 4 50-55m).

Um kvöldið skelltum við okkur svo á Akureyri, komum við í bónus og ríkinu að kaupa nesti, fórum í ljós, sund og skelltum okkur síðan á Greifan í mat. Fengum okkur fínar pizzur og átum eins og við gátum í okkur látið. Komum svo aftur uppí húsið sem við gistum í og lögðum okkur.

Á laugardeginum fórum við svo í aðeins auðveldari leiðir, fórum aftur á sama svæði í annað kerti aðeins ofar og aðeins styttra. Gummi leiddi það upp og gaf nafnið Meyjarhafið (WI4 25-30m). Eftir þá leið skelltum við okkur svo í leið sem þeir Ingvar og Viðar höfðu leitt fyrr um daginn og höfðu þeir hugsað nafnið píkan fyrir hana þar sem þetta er svona leið inni í miðri klettasprungu. Eftir að hafa rætt um þetta í tjaldinu, kom einnig upp nafnið "Leið feimna mannsins". En það ætti að koma í ljós á næstunni hvað þetta mun heita. Okkur leist mjög illa á píkuleiðina þar sem ísinn var svo rosalega þurr og harður að það hlyti að vera eitthvað feministatengt, án þess að við viljum fara nánar útí þá sálma.

Á laugardagskvöldinu var síðan mynda-/slideshow frá erlendu gestunum okkar. Þar var sýnd DVD mynd frá mynd Alberts upp Illuminati, ásamt myndashowi frá ferð hans til Chile í leit að svakalegri ísleið. sem er talin vera erfiðasta fjölspanna mixleið í evrópu M11+. Engin smá leið! Næst var það mynd frá Markus Bendler þar sem hann setti upp og klifraði mixleið sem var gráðuð M13/M14 og var kölluð "Hell's angels paradise", en þurfti að breyta því í "Law and order" þar sem meðlimir Hell's angels voru víst eitthvað óhressir með þessa nafngift. Síðast var það hún Ines Papert sem sýndi okkur myndashow frá ísklifurferð hennar til Noregs, en hún hefur víst líka klifrað þetta M13/M14 leið sem Markus setti upp.

Gummi var þrælslappur þegar hann vaknaði á sunnudeginum og hafði lítið getað sofið um nóttina, sem varð til þess að við klifruðum ekkert á sunnudeginum, og lögðum bara beint af stað í bæinn fyrir hádegi. Komum auðvitað við á Akureyri í leiðinni og fengum okkur að borða á Bautanum. Við vorum komnir á fínum tíma í bæinn og vorum mjög þreyttir eftir þetta alltsaman.

Við viljum nota tækifærið og þakka öllum þeim sem voru með okkur þarna fyrir æðislega helgi, frábært klifur og samveru. Ef næsta festival verður nálægt því að vera jafn gott og þetta þá verður það alveg geggjað! Ekki missa af því !

Myndir


Þín skoðun

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::
Kort Hvar á landinu