22.11.2011 - Fjallamennska

Alpar 2011

Það hlaut að koma að því að Gummi næði að draga hina vitleysingana með sér í Alpana en hann hafði farið þrisvar áður fyrir utan að hafa eiginlega byrjað ferilinn á Mt. Blanc.

Við flugum til Genf í gegnum London og tókum hinn víðfræga AlpyBus til Chamonix. Á leið til Cham sáum við ekki neitt fyrir myrkrinu en þegar við komum að hótelinu benti Gummi strákunum á skæru stjörnuna fyrir ofan þá að það væri efri kláfstöðin uppá Aguille du Midi og trúðu sumir því passlega, enda ótrúlega hátt uppi. Daginn eftir birtist svo öll gersemin og hvarf talsverður tími í að virða hana fyrir sér.

En eftir gott búðarölt í einhverjum af bestu útivistarbúðum heims og spjalli við Marianne og Dennis sem voru stödd í Chamonix og höfðu klifið Petit Dru American direct nokkrum dögum áður héldum við upp í Cosmiques í smá aðlögunartúr.
Fjallaskálarnir eru með góða þjónustu og skemmtilega stemmingu en eru ansi dýrir þegar maður er með ónýtan gjaldmiðil. Þriggja rétta máltíð um kvöldið og morgunmatur sem samanstendur af cornflakes, hörðu brauði, morgunverðarskál af kaffi/te og oftast nóg af Nutella súkkulaðiáleggi.

Fyrsta daginn hvíldum við okkur aðeins lengur og biðum af okkur þoku til kl. 8 og skelltum okkur uppí 4200m á Tacul. Þessi dagur var góður, frábært veður og við bara gerðum þetta eins og okkur langaði til, tókum myndir þegar við vildum taka myndir, héngum í ca. 2 tíma uppá topp að taka myndir og njóta lífsins. Eftir þennan dag var skálinn fullur og við fórum aftur niður í Cham í hvíld. Komum þó aftur upp daginn eftir og gistum aftur í Cosmiques.

Næsta spól var Midi-Plan ridge sem liggur frá Aiguille du Midi og yfir á Aiguille du Plan. Þetta var mjór hryggur ásamt einhverju auðveldu hressandi klettaspóli. Við lögðum af stað frekar snemma en lentum í að fara lengri detour sem tafði okkur um hellings tíma. Við fórum heldur ekki nógu hratt yfir því þegar við vorum við næstsíðasta toppinn á leiðinni var komið langt framyfir hádegi og útlit var fyrir að veður væri að fara að snúast. Við fórum því uppá þann topp og héldum svo til baka sem var rétt ákvörðun því skömmu seinna skall á þrumuveður með tilheyrandi úrkomu og fjöri. Þar fengum við að prufa snjóklifur í þrumuveðri sem var bara nokkuð gaman, allavega gaf maður alltaf aðeins í þegar dundi í öllu um kring.
Margir voru seinir í skálunum og ekki vorum við snemma í því þegar við skriðum uppí skála rennblautir og hressir í þriggja rétta máltíðina góðu sem við fengum þrátt fyrir að maturinn hafi byrjað klukkutíma fyrr.

Næsta dag héldum við svo niður í Chamonix aftur þar sem við áætluðum að hvílast aðeins og kíkja í smá kletta niðri í dal. Við ákváðum að skipta liði daginn eftir þar sem Óðinn og Addi fóru í Le Brevent og klifu multipitch klettaleið á meðan Gummi og Dabbi fóru aftur uppí Midi og klifu Cosmiques ridge. Bæði teymin létu vel af deginum, enda frábært veður. Addi og Óðinn voru komnir niður í þorp um kaffileitið en Dabbi og Gummi rétt sluppu í síðasta kláfinn eftir að hafa hlaupið í gegnum Midi með línuna, axirnar og broddana í fanginu þar sem þennan dag hafði opnunartíminn verið styttur án þess að við vissum en við heyrðum bara tilkynningu um að síðasti kláfur var að koma þegar við vorum á síðustu metrunum.

Eftir þennan dag var takmarkið að fara aftur upp í fjöllin og hjóla í Dent du géant (4013m) sem er flott klettaspíra sem stendur uppí loftið við hlið hinna mikilfenglegu Grandes Jorasses. Það plan fór þó útum þúfur vegna veðurs, en mikið lægðakerfi gekk yfir alpana seinnihluta ferðarinnar. Þess í stað klifum við svoldið í Le Brevent og Les Gaillands. Þegar hinsvegar útlit var fyrir að óveðrið myndi klára ferðina okkar ákváðum við að skella okkur í rútuferð yfir til Ítalíu þar sem við fórum til Aosta og fengum okkur nokkra góða bjóra enda mun ódýrara en í Frakklandi.

Þegar aftur var komið til Chamonix var veðrið farið að skána og á brottfarardeginum var komin algjör blíða og flottar aðstæður að myndast. Meðan við vorum að svekkja okkur á þessu hugsuðum við með okkur að trúlegast hafi einhverjir útlendingar komið til Íslands og verið óhress með veðrið sem þeir fengu.

Það er ekki skrítið að margir af bestu fjallamönnunum hafi búið þarna um tíma, margir taka frá 1-12 mánuði í senn til að lifa þarna og upplifa ævintýri fjallana þar sem aðgangurinn að þeim er sá besti sem völ er á. Vikuferð er ekki nálægt því nóg til að gera nema etv brotabrot af því sem mann langar að gera á svona stað.

Video

Myndir


Þín skoðun

Jón H Guðmundsson fannst ekki ( Vefsíða ) skrifaði þann 23.11.2011 Klukkan 09:54

Flottar myndir eftir flotta ferð, gaman að sjá og lesa.

Katý fannst ekki ( Vefsíða ) skrifaði þann 23.11.2011 Klukkan 12:32

Frábærar myndir, rosalega gaman að skoða ;)

skrifa komment
Nafn:
e-mail:
Vefsíða: http://
Texti:
Summan af
9 og 3::